Ákveðið hefur verið að sameina rekstur og þjónustu félaganna Ekrunnar og Nathan & Olsen undir heitinu Nathan.
Tilgangurinn er að einfalda skipulag, styrkja kjarnastarfsemi og styðja betur við framtíðarvöxt í góðu samstarfi við viðskiptavini.
Segja má að þessar breytingar marki upphaf nýs kafla í sögu sem hófst þegar heildsalan Nathan & Olsen hf. var stofnuð fyrir 113 árum. Ekran hefur þjónað stóreldhúsum og matvælaiðnaði með dagleg aðföng en Nathan & Olsen sérhæft sig í sölu og markaðssetningu á vörumerkjum á snyrti- og dagvörumarkaði. Með sameiningu gefst m.a. færi á að auka hagkvæmni í rekstri og veita öllum viðskiptavinum enn betri þjónustu.
Eignarhaldsfélagið, 1912, verður hluti af sameiningunni undir merkinu Nathan en fjórða félag samstæðunnar, Emmessís, verður áfram rekið sjálfstætt undir óbreyttu heiti.
Nathan hefur flutt inn og dreift fjölbreyttu úrvali af vörum frá mörgum af þekktustu framleiðendum heims síðan árið 1912. Nathan byggir á góðu samstarfi við fyrirtæki sem leita eftir gæðavörum og áreiðanlegri þjónustu; hvort sem það eru stórar og smáar verslanir, stóreldhús eða matvælaframleiðendur.
Okkar markmið er að styðja við árangur viðskiptavina okkar með því að einfalda öll aðföng. Hjá Nathan starfar samhentur hópur fólks með mikla sérþekkingu við að tryggja öflugar heildarlausnir í aðföngum þar sem breitt vöruúrval, hagkvæmt verð, traust afgreiðsla og persónuleg þjónusta eru í fyrirrúmi.
Vöruafgreiðslur okkar og fullkomnar frysti- og kæligeymslur, bæði sunnan og norðan heiða, tryggja skjóta þjónustu um allt land en hámarka um leið gæði hverrar vöru og skapa þannig Nathan mikið forskot á kröfuhörðum markaði.